Öryggismál

Af augljósum ástæðum skal aldrei kveikja á eldstæðinu innandyra.
Velja skal góðan stað í góðri fjarlægð frá húsnæði og brennanlegum efnum, t.d. timburveggjum, grindverkum og plöntum. Mælt er sérstaklega með að hafa hellur undir eldstæðinu.


  • Ekki er mælt með því að hafa eldstæðið á timburpalli.
  • Gott er að rifja upp hvar slökkvitækið er geymt.
  • Aldrei skilja eldstæðið eftir án eftirlits.
  • Sjáið til þess að öll glóð sé kulnuð áður en eldstæðið er yfirgefið, sérstaklega áður en farið er að sofa.
  • Þó gott sé að fá sér einn kaldann við glóandi eldstæðið, passar ölvun og eldur aldrei saman.

PASSIÐ BÖRNIN YKKAR!
Börn skulu ávallt vera undir eftirliti fullorðina við eldstæðið.


Dvalinn & Durinn biðja ykkur um að fara mjög varlega í kringum eld og vilja einnig benda á samantekt hér á síðunni, á lögum og reglugerðum um meðferð elds.

Sömuleiðis væri gott að kynna sér bækling Umhverfisstofnunar um mengun frá útiofnum.

2. gr. Meðferð elds.

  • Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utan dyra þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er umhverfi, gróðri, dýralífi eða mannvirkjum.
  • Gæta skal ýtrustu varkárni við notkun búnaðar sem valdið getur íkveikju utan dyra. Með búnaði er m.a. átt við grill, ljós, útiarna, kerti og hitagjafa.
    Gæta skal ýtrustu varkárni þegar bálkestir eru hlaðnir og við brennur og varðelda, m.a. um staðsetningu og efni sem notað er.
    Opin brennsla úrgangs er óheimil, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs.
  • Skylt er hverjum þeim sem ferðast um landið að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds.
  • Sá sem verður þess var að eldur er laus á víðavangi skal svo fljótt sem auðið er gera aðvart umráðamanni lands, slökkviliði eða öðru hlutaðeigandi yfirvaldi.

5. gr. Bálkestir.

  • Óheimilt er að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns að fengnu samþykki slökkviliðsstjóra og starfsleyfi heilbrigðisnefndar [eða skráningu hjá Umhverfisstofnun, sbr. 6. og 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998]. 1) Ekki þarf þó leyfi til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en 1 m 3 af efni.

Tekið af vef alþingis


Lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

2015 nr. 40 7. júlí

Reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

325/2016

3. gr. Meðferð opins elds.

  • Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utandyra þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er umhverfi, gróðri, dýralífi eða mannvirkjum.
  • Gæta skal ítrustu varkárni við alla meðferð opins elds og ekki skilja við hann óvaktaðan. Fara skal þannig með opinn eld að ekki sé hætta á að hann breiðist út, þ.e. að hann geti ekki borist í mannvirki eða gróður. Tryggja skal möguleika á að slökkva eldinn ef þörf krefur. Brennslu skal stjórnað og hún skal vera undir viðeigandi eftirliti, þar til eldur og glæður eru slökkt á þann hátt að ekki sé hætta á að eldur kvikni að nýju.
  • Taka skal tillit til vindstyrks, vindáttar, umhverfis og landfræðilegra aðstæðna þegar kveiktur er opinn eldur. Reykur af völdum opins elds má ekki valda verulegum óþægindum í nánasta umhverfi. Hafa skal í huga að við brennslu geta myndast óæskileg efni sem ekki ættu að fara út í umhverfi og andrúmsloft.

6. gr. Útiofnar og grill.

  • Staðsetja skal útiofna þannig að eldur geti ekki borist í gróður, sinu, byggingar eða önnur mann­virki. Eldunartæki sem brenna föstu, fljótandi eða loftkenndu eldsneyti má einungis nota á stöðum þar sem ekki stafar eldhætta af notkuninni. Huga skal að því að reykur berist ekki inn í hús eða valdi ónæði hjá nágrönnum.

8. gr. Veðurfarslegar aðstæður.

  • Ekki skal kveikja í bálkesti eða sinu ef meðalvindur er meiri en 10 m/sek eða ef vindátt er óhag­stæð á brennustað, t.d. ef vindur stendur á byggð eða hætta er á að vindátt breytist á meðan á brennu stendur. Ef vindátt eða vindstyrkur breytist eftir að eldur er kveiktur sem veldur aukinni hættu á útbreiðslu eldsins eða verulegum óþægindum, s.s. vegna reyks, glóðar eða ösku, skal gera ráð­stafanir til að slökkva eldinn þegar í stað. Slökkviliði er heimilt að slökkva í bálkesti eða sinu við slíkar aðstæður án fyrirvara.

Tekið saman af vef island.is

Share by: